Sunday, June 27, 2004

Þar lágu Danir í því!

Samúð mín er með Dönum í dag. Það var leitt að þeir unnu ekki Tékkana, sérstaklega í ljósi þess að dönsku landsliðsmennirnir eru með hærri meðaleiknunn hvað útlit varðar, en þeir tékknesku. Ég horfði semsagt á leikinn og áður en útsending hófst var rifjaður upp sigur Dana á EM árið 1992 og það helltist yfir mig svona þjóðarstoltstilfinning, svona eins og þegar ég las í Mogganum að íslenski hesturinn fengi jafnvel að vera með í opnunaratriðinu á vetrarólympíuleikunum í Kanada, jú og þegar ég las frétt þess efnis að við værum 5. mesta bjórdrykkjuþjóð í heimi...kaupi það reyndar ekki alveg, en Írar komust ekki einu sinni á blað yfir topp 10.

Ég ætlaði að vera grand á því áðan og keypti mér grísasneiðar og kartöflusalat. Þetta var mjög gott og allt í lagi með það...þangað til ég fékk herfilega í magann og er enn með í maganum. Þar sem ég á mér ekkert líf þá ákvað ég að tæta niður í 10-11 og bera fram kvörtun, því ekki nóg með að þetta kostaði helling þá sit ég uppi með mat sem ég er ekki að fara að elda aftur. Þau í 10-11 sögðu mér að hafa samband við SS, því þeir myndu víst greiða svona lagað margfalt tilbaka. Ég er nú ekki búin að gera það upp við mig hvort ég bjalli í þau í SS, hefði gert það núna ef þau væru með einhverja kvöld-kjöt-símalínu. Samtalið gæti orðið eitthvað á þessa leið; Góðan daginn, ég keypti ket í 10-11 á Eggertsgötunni í gær, svona mexikólegnar gríðasneiðar en ég var búin að bjóða tengdó í mat og ætlaði nú aldeilis að heilla þau upp úr skónum, enda í fyrsta skipti sem ég býð þeim formlega heim til mín. Ég steikti svo grísinn á pönnu alveg í gegn og svo settumst við að snæðingi. Það höfðu komið með dýrindis rauðvín sem er víst rosalega gott með grís. Það er svo ekki annað nema þegar við erum sest inn í koníaksstofuna að matinum loknum þá fáum við bara hvert af öðru svona líka herfilega í magann. Ég var auðvitað alveg miður mín, og athugaði með dagsetningar á kjötinu sem reyndust vera í lagi. Ég skil samt ekkert í þessu en sem meðlæti vorum við með kartöflur og salat sem var allt nýtt. Ég ræddi við vaktstjóra 10-11 og hann benti mér á að tala beint við ykkur, og mín spurning er því þessi, hvernig takið þið á svona kvörtunum? (lesist með rödd Bibbu á Brávallagötunni)

Ef við höfum í huga komandi helgi, Tjaldað í túnfætinum 2004 og allan mannskapinn sem þar verður, væri ekki amalegt að fá inn nokkra grísi að mexikönskum hætti, ja og kannski nokkra íslenska sauði með. Það er því kannski ekki svo galin hugmynd að bjalla í SS.

Á fimmtudaginn fór ég á Deep Purple sem voru ansi góðir og komu verulega á óvart sé aldur þeirra hafður í huga. Það var þó fleira sem kom á óvart, en það var crowd-ið sem var þarna, en ég veit ekki hvað sumt af þessu fólki heldur sig, það er svo sannarlega ekki í Kringlunni eða á Laugaveginum og því síður á skemmtistöðunum sem ég stunda. Ég að tala um síðhærða stráka á mínum aldri í fatnaði sem hefur ekki verið fyrir augum almennings síðan á 10.áratugnum þegar Jet black Joe var upp á sitt besta. Þeir eru örugglega alltaf í e-m hasspartýjum...djös...dópistar! Annað sem kom á óvart var allt fulla liðið, svo ég tali nú ekki um fullu kellingarnar en ég spottaði meira að segja tvær sem voru komnar á trúnó um 10-leytið. Við vorum á góðum stað en þrátt fyrir það sá ég ekki sérlega mikið enda í klassískri kvennhæð, 170 cm. Við hliðina á okkur var eitthvað gengi um 30 og þar á meðal svona ekta "Brúðkaupsþátturinn JÁ-par" hún svona freek og hann bara rænulaus karlmaður sem gerir allt eins og gellan segir. Hún var fokking óþolandi og alveg óð með tyggjóið, leit út fyrir að vera á spítti en á sama tíma leit hún líka út fyrir að vita ekki hvað spítt er. Gæjinn hennar var eins og Pocahontas, já Pocahontas er sæt...en hún er stelpa. Hann var semsagt mjög fínlegur og krullótta niður-að eyrum-hárið hans var ekki að undirstrika neina karlmennsku. Hann leit út fyrir að vera svona frjálsíþróttagaur, örugglega rakaður á fótunum til að minnka vindmótstöðuna í spretthlapinu. Þessi hárgreiðsla hans átti þó heldur betur eftir að koma sér vel og vera eitt helsta kennileiti fyrir staðsetningu Helgu sis og Óskars en í eina bjórleiðangrinum sem lagði í, fann ég þau eftir að hafa spottað Krulla út í fjöldanum. Bjórinn var líka svo ógeðslega dýr að ég ákvað að láta ekki freistast oftar en einu sinni -lítil dolla á 500, það gerir líter á 1500 sem brýtur í bága við mannréttindi.

Núna er ég að horfa á Helgarsportið eins og sannur sportisti (right). Það var viðtal við e-n nýjann fimleikaþjálfa sem var að dásama aðstöðu til fimleika iðkunar á Íslandi og hann sagði m.a. að það væri nauðsynlegt að byrja ungur að æfa til að ná árangri. Þá rifjaðist upp fyrir mér fimleikadellan sem ég fékk einu sinni í sveitinni. Ég byrjaði því að æfa mig sjálf í túnfætinum og þá var vitanlega ekki hægt að keyra með mig á e-r fimleikaæfingar 30 kílómetra nokkrum sinnum í viku. Ég var orðin nokkuð góð í arabastökki, handahlaupum og fl. Þessar æfingar dugðu mér þó ekki til að komast á toppinn, en ég held reyndar að ég hafi áttað mig á því á miðju æfingatímabilinu að ég myndi seint komast á toppinn, en æfingartímabilið varði þó ekki lengur en eitt sumar eða svo. By the way...hver sér eiginlega um lagaval í Helgarsportinu...það er verið að spila Baywatch lagið undir myndum frá sundkeppnismóti...hvað er það?!

En nóg um Helgarsportið...nú er Spurt að leikslokum og farið yfir leiki dagsins...best að tjekka á því.

Eins og ég segi...ég á mér stundum ekkert líf og með þessu áframhaldi mun rassgatið á mér verða svo stórt að ég þarf að borga tvö flugsæti og kaupa efni í fermetratali þegar ég ætla að sauma á mig föt, auk þess sem ég mun þá alveglega útiloka þann möguleika að einhver karlmenn vilji þýðast mér og því síður til langframa. Ja nema kannski þeir sem fíla feitar konur sem eiga 5 ketti...já ég verð pottþétt feit kattakona sem lifir fyrir að horfa á karlmenn spila fótbolta og kvarta undan skemmdum mat. Ég er samt að byrja annað heilsuátak! Drekka minna, vill heldur ekki vera lifuð feit kona, synda meira og borða hollan mat! Rock on! ...eða þannig!

p.s...what goes around...comes around...týndi debetkortinu mínu í gær...eftir því sem ég best veit hefur ekki enn verið tekið út af því.

1 Comments:

Blogger Kolbrún said...

FYI þá fæ ég ALLTAF í magann af grísa/svínakjöti (sérst.grilleitthvað) og sérstaklega ef ég borða líka kartöflur. Enda ástæðan fyrir því að ég hef ekki borðað svínakjöt í mörg ár nema á jólunum. En NB ég fæ bara svona í magann en ekki svona matareitrunar upp og niður neitt. ;) frábært umræðuefni. Vona að þér líði betur. Tútilú.

11:37 PM  

Post a Comment

<< Home